Orkuskipti í vegasamgöngum eru eitt mikilvægasta úrlausnarefni Íslands í þágu loftslagsmála.
Árlega nemur losun frá vegasamgöngum um þriðjungi af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda eða um einni milljón tonna CO2 ígilda. Stjórnvöld hafa sett sér markmið um kolefnishlutlaust Ísland 2040 og ljóst er að orkuskipti í samgöngum eru eitt brýnasta verkefnið á þeirri vegferð.
Íslensk fyrirtæki og stofnanir reka mörg hver stóra bílaflota og ráða því miklu um það hversu hratt orkuskiptin eiga sér stað.
Grænvangur hefur því í samstarfi við fjölmarga aðila ýtt úr vör verkefninu Hreinn, 2 og 3! Í verkefninu felst að nýskráning fólksbíla, sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti, verði lögð af fyrir árið 2023. Með því verður Ísland í forystu á heimsvísu hvað varðar notkun umhverfisvænna orkugjafa.